Mikilvægi þess að segja frá

Ég hef verið að hugsa nýverið um það að deila.  Að segja frá.

En ég gerði það út frá sjónarhorni sálarinnar… afhverju er þetta svona sterkt í okkur og hver er hvatinn.

Er þetta mögulega eitthvað sem gæti talist vera ein af frumþörfum mannsins?

Mín tilfinning er sú að það að segja frá sé partur af því að upplifa sjálfan sig.

Frásögn verður ekki bara einhver upptalning eða endursögn heldur minning sem

verður skrásett í hið guðlæga bókasaft Akasha.

En að deila eða að segja frá er bara einn parturinn, hinn parturinn er svo sá þegar að einhver, einn eða fleiri,

verða svo vitni af því sem deilt var.

Þetta er jú alltaf samspil. Einn sem gefur, hinn sem tekur við.

Sá sem tekur við er í raun vitni, og þetta orð hefur vakið athygli mína meira og meira uppá síðkastið líka.

Að vera vitni eða bera vitni einhvers atburðar er gríðarlega heilög athöfn.

Það er sorglegt hvað menning okkar daga hefur gleymt krafti vitnisins og mikilvægi þess.

Sá sem horfir, án dóms og með opið hjarta getur nefninlega opnað hurð milli heima.  Vitnið er því ekki bara áhorfandi

Heldur sá eða sú sem ber áfram sögu lífsins. Vitnið staðfestir að tilvist hafi átt sér stað og það er ekkert smá verk.

Við þráum öll að vera séð, að vera viðurkennd og að einhver segi við okkur: Ég trúi þér.

Að okkar veruleiki sé viðurkenndur og raunverulegur.

Þessi þörf er djúpstæð og nær ansi langt aftur í tímann.

Þessi dans milli þess sem skapar og þess sem tekur við.

Að deila og að vera séður.

Hugsum um hellisbúann,,, þann sem teiknaði á veggina. Hver var tilgangur hans ?  Hvað var hann/hún raunverulega að miðla.

Um hvað snýst þetta í kjarna sínum ?

Svarið sem mig langar að koma með núna og deila með ykkur er fyrir mér ansi merkilegt og kveikir eitthvað aldagamalt innra með mér þegar ég velti mér upp úr því.

Í kjarna sínums nýst þetta, fyrir sálina, um að verða VITNI AÐ EIGIN TILVERU.

Fyrsta myndin sem var teiknuð í hellinum var ekki fyrir neinn annan, heldur var hún gerð fyrir þann sem skapaði hana.

Eitthvað til að staðfesta fyrir þeim að: þetta gerðist, ég var hér og ég lifði það af. ÞETTA er satt.

Þarna á bakvið er þörf fyrir viðveru og vitnisburð. Og svo þegar annar sér það, þá verður sannleikurinn heilagur.

Það verður til VITNI og þá er þetta ekki bara lengur til innra með mér (sem skapara verksins) heldur líka með umheiminum.

Þannig má segja að við SEGJUM FRÁ til þess að gera innri reynslu að YTRI og þessi partur er mikilvægur að því leitinu til að ef við gerum það ekki þá er hætta á að þessi reynsla lokist inni, verði þögul og breytist mögulega í skugga eða skömm.

Það sem sagan gerir, orðin, rúnin, táknið í hellinum, tattoo-ið er að segja: ég mun ekki gleymast - ég skipti máli.

Það er ritual sálarinnar, hún festir eitthvað niður sem annars væri einungis draumsýn, og með því verður hún heil.

Þetta snýst um að heiðra og viðurkenna sjálfan sig og sína tilvist. Allt það sem þú hefur gengið í gegnum og upplifað má ekki bara búa innra með þér, það er svo mikilvægt að fá þetta í form og leyfa þessu að flæða. Það eru margar leiðir til þess og það þarf ekki alltaf að deila opinberlega eða skrifa heila bók. Það má líka vera list sem geymist svo inn í lokuðu herbergi. En sagan/upplifunin er þá búin að fá form og er ekki lengur föst hið innra.

Í dag er tíminn annar heldur en fyrir hellisbúann. Við lifum á tækniöld þar sem allt gerist mjög hratt og möguleikarnir til að miðla og segja frá eru endalausir.

En það býður líka upp á misnotkun og óskýran ásetning eða tilgang. Þetta getur snúist upp í andhverfu sína og orðið yfirborðskennt.

Það er ekki alltaf þessi heilagi dans á milli þess sem deilir og þess sem ber vitni. Stundum er BARA áhorf.

Það er nefninlega munur á því. Áhorfandi og vitni er ekki það sama og munurinn er gríðarlegur.

Að segja frá í samhengi hjartans, í gegnum ritual, skrif, ljóð eða þess háttar þá minnum við okkur á að þetta hefur alltaf verið heilög iðja.

Við höfum alltaf sagt sögur, við höfum alltaf ristað í stein og tré. Við höfum alltaf hvíslað í vindinn. Af því að við viljum ekki bara lifa heldur líka skilja afhverju við höfum lifað.

Og það er staðfestingin. Þar sem eitthvað óáþreyfanlegt verður þreyfanlegt.

Þar sem hið ósýnilega fær hold.

Þar sem sálin stígur inn í líkama og heimurinn fær vitneskju um að hún hafi komið.

Next
Next

Sálfræði vs. heilun