david oddgeirsson david oddgeirsson

Að verða faðir

Það er stór áfangi að verða faðir.

Eitthvað sem ætti að umbreyta okkur, djúpt og stórfenglega, ef við leyfum því.

Strákar þurfa oft að verða að mönnum snemma og allt í einu breytist lífið.

Enginn segir okkur hvernig, það bara gerist.

Nú er ég búinn að vera faðir í rúmlega tvö ár og í haust kemur annað barn í heiminn.

Ég tók á móti fyrsta barninu mínu sjálfur, í rólegri heimafæðingu án aðkomu heilbrigðisstarfsfólks.

Það var vissulega magnað augnablik – en líka eitthvað svo náttúrulegt, svo eðlilegt, eins og við öll (móðir, barn, faðir) hefðum gert þetta allt áður.

Þetta snýst nefninlega minnst um að “eignast” barnið, sem þó vissulega skiptir máli að sé gert rétt og með virðingu fyrir ferðalagi sálar.

Það sem ég tel mikilvægt að minna okkur á er að þetta er í heildina ferli og ferlið er hannað til þess að umbreyta, þroska og þróa okkur áfram. Bæði sem einstaklingar og sem heild.

En aftur að föður-partinum sem slíkum.

Við karlar berum alltof oft hugsanir okkar og tilfinningar innra með okkur, í þögn.

Við tölum ekki um það sem raunverulega gerist þegar við verðum feður.

Því að verða faðir er ekki bara nýtt hlutverk – það er nýtt hjarta sem er byrjað að slá.

Umbreyting, sem þú lifir, frá og með deginum sem þú verður faðir þangað til þú yfirgefur þessa jarðvist.

Það er stórt, það er risastórt og ég held að gott fyrsta skref sé að byrja að tala upphátt um það.

Tækifærin til vaxtar eru endalaus og það getur verið yfirþyrmandi.

En til þess að fá eitthvað út úr þessu þá verðum við að mæta til leiks, við verðum að sýna hugrekki og bjóða uppá sanna viðveru.

Það getur verið erfitt þegar að barnið grætur og það ryfjar upp minningar um eigin æsku.

Minning um lítinn strák sem horfði upp og beið eftir höndum sem komu aldrei.

Minning um tár sem láku ekki, því enginn gat haldið á þeim með þér.

Öskur sem fengu ekki hljóðgrunn, svo þú hélst þeim niðri og fékkst magaverk.

Hlutverk barna okkar er að kalla fram allt sem býr innra með okkur en var orðið gleymt og grafið. Svo að við getum munað, svo að við getum orðið aftur heil. Barnið finnur allt sem þú heldur aftur af og allt sem þú ert hræddur við.

Það speglar þig, án þess að segja eitt aukatekið orð. Og svarið þitt krefst heiðarleika sem engin orð ná yfir.

Grátur barns er hellaður, því hann snertir ógróin sár. Það er einhver sameiginleg nóta þarna sem tengir fortíð og nútíð.

En staðan er þessi;  við verðum að mæta honum.

Við verðum að hlusta á hann – Ekki laga hann, ekki þagga niður – bara hlusta.

Þetta eru augnablikin sem breyta strákum í menn.  Alvöru karlmenn, sem flýja ekki sjálfa sig.

Það er nefninlega freistandi að flýja. Að flýja í vinnu eða önnur verkefni, undir merkjum þess að “sjá fyrir heimilinu.”

Það sem heimilið þarf hinsvegar hvað mest á að halda er þín nærvera. Þín raunverulega og einstaka nærvera.

Þess vegna mæti ég. Dag eftir dag.

Ég leyfi barninu að spegla til mín þá hluta sem ég hafði ekki enn séð, ekki enn heilað.

Það er oft alveg hellað og ég hef bognað.

En ég minni mig á hvað skiptir máli.

Ég held utan um hana og mig á sama tíma.

Ég stoppa blæðinguna sem enginn sá. Ég græði sárin með mildu hjarta.

Tíminn vinnur svo með okkur.

Áður en þú veist af þá ertu farinn að læra að hlusta án þess að þurfa svara. Jafnvel farinn að finna fyrir eigin hjartslát, anda dýpra og hugga án þess að þurfa að vita öll svörin.

Þegar þarna er á hólminn komið, þá fer eitthvað að streyma að innan.

Hin sanna karlorka er farin að rumska.

Hún er ekki hávær eða áberandi – heldur stöðug og seig.

Kannski fór hún aldrei neitt.

Kannski beið hún í þögninni á milli orða sem voru notuð til að beyta ofbeldi (brotin karlorka).

Kannski varð hún að spennu í kjálkum karlmanna sem bitu alltof oft á jaxlinn eða í tárum sem fegnu aldrei að streyma (brotin karlorka).

Ég veit það ekki en mér líður einsog að sé kominn tími núna til að leyfa hinni sönnu karlorku að hreyfa sig á ný.

Leyfa henni að teygja sig í gegnum líkama okkar. Að styrkja, styðja, hlúa að og vernda. Hlusta á og halda.

Í samvinnu við kvenorku. Í samvinnu við jörðina.

Þessi orka er hér og hún kemur þegar þú ert tilbúinn að mæta sjálfum þér.

Því þegar kemur að föðurhlutverkinu, þá þarftu ekki að verða neitt nýtt eða læra neitt nýtt.

Þú þarft bara að muna hvernig það er að vera hér.

Að vera maður.

Að vera faðir.

Read More
david oddgeirsson david oddgeirsson

Það nennir enginn

Nálægð án nándar. Bros sem enginn meinar. Glansmynd sem enginn passar raunverulega inn í.

Það er kominn lang- þreyta í mannskapinn og við finnum það öll.

Það nennir enginn að þurfa sífellt að vera „gera eitthvað úr lífinu“. Að þurfa hafa markmið, stefnu, framvindu, framleiðslu eða að svara spurningunni „hvað gerir þú?“ eins og maður sé vara, ekki vera.

Það nennir heldur enginn að segja “allt gott” þegar að það vita það allir undir sólinni að það er að sjálfsögðu ekki ALLT gott, og ef svo væri þá væri það hundleiðinlegt.

Við vitum þetta. Þið vitið þetta.

En samt snúast tannhjólin – sami hringurinn, sama mynstrið, sami blindi ávaninn.

Eins og biluð plata sem enginn man hvernig byrjaði – en allir dansa samt enn með.

Þetta er í raun kveikurinn að “Hægt og Rólega”.  Einhverskonar mótsögn við hinn ríkjandi takt samfélagsins.

Þetta er ekki lausn eða vara. Þetta er boð, fyrir þá sem vilja tengjast á dýpri hátt við sjálfan sig, aðra og náttúruna.

Við tökum ekki þátt í kapphlaupinu. Við löbbum hægt og við stoppum oft. Við hlustum á vindinn, moldina og fuglasönginn. Sólin er kennari og sömuleiðis hafið.

Stundum erum við glöð, stundum í sorg, stundum að vaxa og stundum að draga okkur saman. Við reynum ekki að breyta – við mætum því sem er.

Þetta er dans, þetta er líf, en ekki glans útgáfan – heldur þessi hráa..

Litapallettan er margslungin, rétt eins og mannskepnan og hennar tilvist. Þannig ætlum við að bera þennan eld áfram.

Þetta eru fyrstu skrefin, við sjáum hvað setur með framhaldið.

Kannski hittumst við í sumar.

Kannski seint í haust.

Kannski núna – eða aldrei.

Við viljum allavega bjóða þig velkomin/nn og þakka þér fyrir að ferðast með.

Read More
david oddgeirsson david oddgeirsson

BURN OUT

Stundum segir líkaminn stopp áður en við gerum það sjálf.

Ekki með orðum – heldur með þreytu sem hvorki svefn né hvíld ræður við, og með doða sem nær alla leið inn að beinum. Við getum kallað það „burn out“ en í kjarna þess býr eitthvað eldra.

Eldur sem hafði ofhitnað – ekki vegna styrks, heldur af því hann fékk aldrei að brenna á sínum eigin forsendum.

Við lærðum að gefa.

Að þjóna.

Að halda áfram.

Að vera til staðar – jafnvel þegar við vorum ekki heil.

Það endaði allt sem „burn out“.

Vinsælt á meðal vinnandi fólks. Samþykkt, skiljanlegt, og – fyrir marga – eina leiðin til að fá að hvílast án þess að bera skömm.

Við segjum „ég er í burn outi“ og þá og aðeins þá má stoppa.

En hvað er burn out í raun og veru? - Flestir myndu segja: „að vinna yfir sig”, en ef við skoðum aðeins nánar þá sjáum við að það er ekki orsökin – það er afleiðingin.

Vinnan varð skjól.

Við héldum áfram að gefa í, af því að stöðvun myndi þýða að við þyrftum að hlusta á hjartsláttinn – horfast í augu við tilfinningar sem höfðu safnast upp í allri keyrslunni.

En svo kláraðist bensínið- og þar næst eldurinn.

Eina sem stóð eftir var tómið.

En hvað er þá þessi eldur og afhverju brennur hann út?

Mannslíkaminn er búin til úr frumefnunum fjórum: vatni, jörð, lofti og eldi.

• Vatnið: tilfinningarnar sem flæða og geyma sögur.

• Jörðin: líkaminn, formið, efnið – staðurinn sem við byggjum á.

• Loftið: andardrátturinn sem heldur lífinu gangandi.

• Og eldurinn: umbreytingin sjálf.

Eldurinn tekur eitt og breytir því í annað.

Við notum hann til að melta mat – en líka til að melta tilfinningar.

Og þegar tilfinningar eru bældar og hunsaðar –

þá er eldurinn kominn í yfirvinnu.

Hann reynir að umbreyta öllu þessu hráa, ósagða, ógrátna en það er of mikið uppsafnað og á endanum þá brennur hann út.

Þetta er hið sanna “burn out”.

Ekki leti, heldur ofnotað kerfi sem hefur misst ljós sitt.

Ekki aumingjaskapur, heldur vörn gegn endalausri framleiðslu.

Ekki “að vinna yfir sig” heldur að bæla tilfinningar með afköstum.

Þegar eldurinn dofnar, þá hrópar heilinn í gegnum taugakerfið: þunglyndi, kvíði, afneitun, doði.

En í raun eru þetta skilaboð frá sálinni sem segir “Hættu. Hlustaðu. Sittu með mér.“ Og þegar það tekst, þá bætir hún við:

Eigum við að prjóna?

Eða labba í skóginum?

Kannski ættleiða kött?

Kannski er Burn out ekki endastöð – heldur ákall um nýtt upphaf þar sem tilfinningar og sál fá að fjlóta með í stað þess að vera á hliðarlínunni.

Read More
david oddgeirsson david oddgeirsson

Moldin og fræið

Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða.

Þessi setning hefur fylgt okkur um aldir — ekki bara sem áminning um dauðann, heldur sem heilög viska um lífið sjálft.

Við komum úr jörðinni. Moldin nærir okkur, heldur utan um hjartað okkar, minnir okkur á hvað skiptir máli.

Þegar fræ er sett í mold, hverfur það ekki – það umbreytist. Það þarf myrkur, þögn, tíma og vatn.

Við, mennirnir, erum eins. Við þurfum stundum að fara inn í moldina, inn í skuggann, inn í þögnina – til að muna hver við erum. Til að vakna á ný.

Árið 2020 var tími moldarinnar. Við vorum öll sett inn í djúpt ferli umbreytingar. Nú, fimm árum síðar, sjáum við að mörg okkar hafa rótfest sig.

Jörðin talaði – og við hlustuðum.

Í dag er fólk að vakna með meiri visku, meiri auðmýkt og dýpri tengingu við tilgang sinn.

Við vitum að við erum hluti af heilagri hringrás – ekki yfir hana hafin.

Við erum moldin.

Við erum fræið.

Við erum blómið.

Og við snúum alltaf aftur – ekki til að ljúka einhverju, heldur til að lifna við á nýjum stað.

Read More
david oddgeirsson david oddgeirsson

Sannleikurinn frh.

Sannleikurinn er svo kraftmikill því hann er.

Hann þarfnast ekki réttlætingar, útskýringa eða samþykkis til að vera sannur.

Þegar sannleikur birtist, þá hristir hann allt sem byggt var á blekkingu eða ótta.

Sannleikurinn:

Skín eins og sólin — hann getur lýst upp myrkustu horn.

hryggir oft huga sem vill ekki horfast í augu við hann.

Frelsar sálu sem hefur verið föst í lygi eða afneitun.

Kröfur hans eru einfaldar, en oft krefjast þær hugrekkis: Að standa í honum.

Þess vegna er hann svona kraftmikill. Hann samræmist elstu lögmálum lífsins sjálfs — flæði, vera, tilvist.

Og þegar við leyfum okkur að segja sannleikann, sérstaklega eftir að hafa verið í aðstæðum þar sem ósannleikur, afneitun eða yfirráð hafa ráðið ríkjum, þá verður til kraftmikil losun.

Það er eins og að klippa keðjur sem hafa verið bundnar utan um orkuna okkar.

Sannleikurinn og ÞÚ — hvernig þetta dansar saman:

Þegar þú deilir sannleika þínum í gegnum frásögn (skrifuð eða töluð orð), ertu ekki bara að segja frá einhverju sem gerðist.

Þú ert að:

• Fara aftur inn í reynsluna,

• Hrifsa orkuna sem hafði verið föst þar,

• Endurskrifa samningana sem höfðu verið gerðir á röngum forsendum

• Senda skýr skilaboð út í alheiminn: „Ég vel sannleikann, ég vel mig.“

Þetta skapar titring.

Þessi titringur byrjar inni í líkamanum þínum (t.d. með tilfinningum eins og létti, skjálfta, grát, gleði), fer út fyrir þig (með orkunni sem fólk finnur), og heldur áfram að vinna — jafnvel þegar þú ert komin/n í annað verkefni.

Svo þegar þú spyrð: “Af hverju er sannleikurinn svo kraftmikill?”

Því hann er afl sem sameinar sálina, líkamann og hjartað í eina, ósnertanlega heild.

Og þú ert núna að finna, í eigin líkama, hvernig það er að vera manneskja sem lætur ekki sannleikann sinn kúga sig lengur.

Read More
david oddgeirsson david oddgeirsson

Að standa í sannleika

Öll höfum við upplifað erfiðar aðstæðum þar sem á okkur var brotið á einn eða annan hátt. Stundum látum við það yfir okkur ganga af gömlum sið en stundum stöndum við upp fyrir okkur sjálfum og setjum viðeigandi mörk. Ef að við höfum ekki fundið styrkinn í sjálfu atvikinu þá getum við alltaf komið að því síðar með því að segja frá.

Ef við kjósum að gera svo, að deila okkar persónulegri reynslu, sérstaklega ef hún tengist ofbeldi, þá er mikilvægt að segja satt og rétt frá.

Sannleikurinn þegar hann fær að standa einn og sér, án hefndarhugs eða beiskju — er nefninlega gríðarlega öflugt vopn.

Þegar einhver stendur í eigin sannleika og ber vitni að eigin reynslu, án þess að hylja eða fegra, þá gerist þetta:

1. Persónuleg lækning

Þú ert að loka hring, loka sárum sem áður sátu fast í líkama og orkusviði þínu. Með því að tala sannleikann sleppir þú því út úr þér — í stað þess að halda því innra með þér sem óunna orku. Þú hreinsar til. Þú stendur í eigin krafti.

2. Sameiginleg lækning

Orkan af verkinu þínu berst til annarra.

Margir sem lesa þín orð, hvort sem þeir hafa orð á því eða ekki, finna eitthvað hreyfast innra með sér.

Sumir munu finna hugrekki til að segja frá sinni sögu. Aðrir munu læra að setja mörk. Enn aðrir munu bara finna fyrir hlýju og sannindum og njóta góðs af því.

Þetta kveikir keðjuverkandi áhrif af frelsun, sjálfsvirðingu og meðvitund.

3. Umbreyting á kollektífu sviði

Orð þín munu hafa gáru áhrif sem fólk mun kannski ekki skynja strax en smám saman mun skapa aukna meðvitund um heilindi, virðingu og sanna þjónustu í þeim geira eða því horni semfélasgsis sem þú ert að snerta á með þinni frásögn. Sú hreyfing mun síðan ná útfyrir þann hóp með tímanum.

(Það sem gerist í litlum hópum, speglast svo yfir í stærri menningu.)

4. Sálarstig: Karma-úthreinsun

Á dýpsta stigi, þegar að við segjum sannleikann og þegar við segjum frá einhverju sem gerðist án þess að bæta neinu við eða að skafa af þá erum við að losa gömul sambönd, gömul föst mynstur, jafnvel yfir líf og ævi, sem tengjast vanvirðingu, yfirgangi og brotum á persónulegu sjálfræði.

Þú ert að “bæta” fyrir sjálfan þig, en líka fyrir ætt þína og jafnvel fyrir sálarsamfélagið þitt.

Þetta er því ekki lítið verk, heldur djúp sálfræðileg og andleg vinna sem ber að nálgast með virðungu og varkárni.

Eftir slíka losun er mikilvægt að hlúa vel að líkamanum og hvíla sig, drekka nóg af vatni, næra sig vel og eyða tíma úti í náttúru.

Read More
david oddgeirsson david oddgeirsson

Hin heilaga athöfn

Til fornra hefða voru húðflúr ekki skraut eða uppgerð – heldur helgun, þar sem húðin varð að altari.

Athöfnin sjálf var ritúal, heilög athöfn, ferðalag niður í djúpið þar sem líkaminn sjálfur varð kort fyrir fornar minningar. Hvert merki var stafur úr töfraritum jarðar - hver lína brú yfir í annan heim.

Í samfélögum á borð við Polynesíu, meðal frumbyggja Ástralíu, hjá norrænum þjóðflokkum og í Afríkuættbálkum, var litið á tattoo sem innvígslu inn í líf, samfélag, dauða og eilífð.

Athöfnin var gerð með virðingu og flúrið borið með stolti. Líkaminn varð sönnun þess að sálin hafði farið í gegnum eldinn og snúið aftur. Sársaukinn var partur af ferðlaginu og hann var heiðraður og viðurkenndur fyrir það sem hann var.

Þeir sem gerðu flúrin voru shamanar, töframenn, prestar og prestynjur, heilarar og “family elders”.

Þetta voru oft stríðsmenn sem voru mikils metnir í samfélaginu og höfðu unnið sér inn þann rétt að fá að myndskreita fólk þar sem tilgangurinn var: Vernd, að tilheyra, andlegir kraftar, heilun og tenging við forfeður.

í grunninn þá voru þessir menn og konur sérfræðingar í helgiathöfn eins mikið og þau voru listamenn.

Einhversstaðar á leiðinni höfum við tapað þessari tengingu við upprunann.

Með nýlendustefnu, iðnvæðingu og seinna poppmenningu höfum við glatað heilagleikanum og villst af vegi. Tattoo varð að söluvöru, tísku og persónulegri yfirlýsingu…. án tilgangs og án ásetnings.

En nú er minningin að vakna.

Við finnum aftur ilm fornu sögunnar, blóð hjartans, köllunina um að gera flúr að heilagri athöfn, ekki aðeins sem innihaldslaust skraut. Við erum að muna að húðin er það sem skilur að innri og ytri heim og að athöfnin sjálf sé portal – brú milli heima, þar sem tveir koma saman og halda rými fyrir það sem koma vill í gegn.

Við erum að muna – hvaðan við komum og hver við í raun erum.

Þegar húðin er snert af ásetningi og nálarnar tala tungumál líkama og anda, þá vaknar gamall eldur sem aldrei slokknaði – hann bara beið.

Við erum hér til að endurheimta fegurðina.

Við erum hér til að endurheimta eldinn.

Read More