BURN OUT
Stundum segir líkaminn stopp áður en við gerum það sjálf.
Ekki með orðum – heldur með þreytu sem hvorki svefn né hvíld ræður við, og með doða sem nær alla leið inn að beinum. Við getum kallað það „burn out“ en í kjarna þess býr eitthvað eldra.
Eldur sem hafði ofhitnað – ekki vegna styrks, heldur af því hann fékk aldrei að brenna á sínum eigin forsendum.
Við lærðum að gefa.
Að þjóna.
Að halda áfram.
Að vera til staðar – jafnvel þegar við vorum ekki heil.
Það endaði allt sem „burn out“.
Vinsælt á meðal vinnandi fólks. Samþykkt, skiljanlegt, og – fyrir marga – eina leiðin til að fá að hvílast án þess að bera skömm.
Við segjum „ég er í burn outi“ og þá og aðeins þá má stoppa.
En hvað er burn out í raun og veru? - Flestir myndu segja: „að vinna yfir sig”, en ef við skoðum aðeins nánar þá sjáum við að það er ekki orsökin – það er afleiðingin.
Vinnan varð skjól.
Við héldum áfram að gefa í, af því að stöðvun myndi þýða að við þyrftum að hlusta á hjartsláttinn – horfast í augu við tilfinningar sem höfðu safnast upp í allri keyrslunni.
En svo kláraðist bensínið- og þar næst eldurinn.
Eina sem stóð eftir var tómið.
En hvað er þá þessi eldur og afhverju brennur hann út?
Mannslíkaminn er búin til úr frumefnunum fjórum: vatni, jörð, lofti og eldi.
• Vatnið: tilfinningarnar sem flæða og geyma sögur.
• Jörðin: líkaminn, formið, efnið – staðurinn sem við byggjum á.
• Loftið: andardrátturinn sem heldur lífinu gangandi.
• Og eldurinn: umbreytingin sjálf.
Eldurinn tekur eitt og breytir því í annað.
Við notum hann til að melta mat – en líka til að melta tilfinningar.
Og þegar tilfinningar eru bældar og hunsaðar –
þá er eldurinn kominn í yfirvinnu.
Hann reynir að umbreyta öllu þessu hráa, ósagða, ógrátna en það er of mikið uppsafnað og á endanum þá brennur hann út.
Þetta er hið sanna “burn out”.
Ekki leti, heldur ofnotað kerfi sem hefur misst ljós sitt.
Ekki aumingjaskapur, heldur vörn gegn endalausri framleiðslu.
Ekki “að vinna yfir sig” heldur að bæla tilfinningar með afköstum.
Þegar eldurinn dofnar, þá hrópar heilinn í gegnum taugakerfið: þunglyndi, kvíði, afneitun, doði.
En í raun eru þetta skilaboð frá sálinni sem segir “Hættu. Hlustaðu. Sittu með mér.“ Og þegar það tekst, þá bætir hún við:
Eigum við að prjóna?
Eða labba í skóginum?
Kannski ættleiða kött?
Kannski er Burn out ekki endastöð – heldur ákall um nýtt upphaf þar sem tilfinningar og sál fá að fjlóta með í stað þess að vera á hliðarlínunni.