Að verða faðir

Það er stór áfangi að verða faðir.

Eitthvað sem ætti að umbreyta okkur, djúpt og stórfenglega, ef við leyfum því.

Strákar þurfa oft að verða að mönnum snemma og allt í einu breytist lífið.

Enginn segir okkur hvernig, það bara gerist.

Nú er ég búinn að vera faðir í rúmlega tvö ár og í haust kemur annað barn í heiminn.

Ég tók á móti fyrsta barninu mínu sjálfur, í rólegri heimafæðingu án aðkomu heilbrigðisstarfsfólks.

Það var vissulega magnað augnablik – en líka eitthvað svo náttúrulegt, svo eðlilegt, eins og við öll (móðir, barn, faðir) hefðum gert þetta allt áður.

Þetta snýst nefninlega minnst um að “eignast” barnið, sem þó vissulega skiptir máli að sé gert rétt og með virðingu fyrir ferðalagi sálar.

Það sem ég tel mikilvægt að minna okkur á er að þetta er í heildina ferli og ferlið er hannað til þess að umbreyta, þroska og þróa okkur áfram. Bæði sem einstaklingar og sem heild.

En aftur að föður-partinum sem slíkum.

Við karlar berum alltof oft hugsanir okkar og tilfinningar innra með okkur, í þögn.

Við tölum ekki um það sem raunverulega gerist þegar við verðum feður.

Því að verða faðir er ekki bara nýtt hlutverk – það er nýtt hjarta sem er byrjað að slá.

Umbreyting, sem þú lifir, frá og með deginum sem þú verður faðir þangað til þú yfirgefur þessa jarðvist.

Það er stórt, það er risastórt og ég held að gott fyrsta skref sé að byrja að tala upphátt um það.

Tækifærin til vaxtar eru endalaus og það getur verið yfirþyrmandi.

En til þess að fá eitthvað út úr þessu þá verðum við að mæta til leiks, við verðum að sýna hugrekki og bjóða uppá sanna viðveru.

Það getur verið erfitt þegar að barnið grætur og það ryfjar upp minningar um eigin æsku.

Minning um lítinn strák sem horfði upp og beið eftir höndum sem komu aldrei.

Minning um tár sem láku ekki, því enginn gat haldið á þeim með þér.

Öskur sem fengu ekki hljóðgrunn, svo þú hélst þeim niðri og fékkst magaverk.

Hlutverk barna okkar er að kalla fram allt sem býr innra með okkur en var orðið gleymt og grafið. Svo að við getum munað, svo að við getum orðið aftur heil. Barnið finnur allt sem þú heldur aftur af og allt sem þú ert hræddur við.

Það speglar þig, án þess að segja eitt aukatekið orð. Og svarið þitt krefst heiðarleika sem engin orð ná yfir.

Grátur barns er hellaður, því hann snertir ógróin sár. Það er einhver sameiginleg nóta þarna sem tengir fortíð og nútíð.

En staðan er þessi;  við verðum að mæta honum.

Við verðum að hlusta á hann – Ekki laga hann, ekki þagga niður – bara hlusta.

Þetta eru augnablikin sem breyta strákum í menn.  Alvöru karlmenn, sem flýja ekki sjálfa sig.

Það er nefninlega freistandi að flýja. Að flýja í vinnu eða önnur verkefni, undir merkjum þess að “sjá fyrir heimilinu.”

Það sem heimilið þarf hinsvegar hvað mest á að halda er þín nærvera. Þín raunverulega og einstaka nærvera.

Þess vegna mæti ég. Dag eftir dag.

Ég leyfi barninu að spegla til mín þá hluta sem ég hafði ekki enn séð, ekki enn heilað.

Það er oft alveg hellað og ég hef bognað.

En ég minni mig á hvað skiptir máli.

Ég held utan um hana og mig á sama tíma.

Ég stoppa blæðinguna sem enginn sá. Ég græði sárin með mildu hjarta.

Tíminn vinnur svo með okkur.

Áður en þú veist af þá ertu farinn að læra að hlusta án þess að þurfa svara. Jafnvel farinn að finna fyrir eigin hjartslát, anda dýpra og hugga án þess að þurfa að vita öll svörin.

Þegar þarna er á hólminn komið, þá fer eitthvað að streyma að innan.

Hin sanna karlorka er farin að rumska.

Hún er ekki hávær eða áberandi – heldur stöðug og seig.

Kannski fór hún aldrei neitt.

Kannski beið hún í þögninni á milli orða sem voru notuð til að beyta ofbeldi (brotin karlorka).

Kannski varð hún að spennu í kjálkum karlmanna sem bitu alltof oft á jaxlinn eða í tárum sem fegnu aldrei að streyma (brotin karlorka).

Ég veit það ekki en mér líður einsog að sé kominn tími núna til að leyfa hinni sönnu karlorku að hreyfa sig á ný.

Leyfa henni að teygja sig í gegnum líkama okkar. Að styrkja, styðja, hlúa að og vernda. Hlusta á og halda.

Í samvinnu við kvenorku. Í samvinnu við jörðina.

Þessi orka er hér og hún kemur þegar þú ert tilbúinn að mæta sjálfum þér.

Því þegar kemur að föðurhlutverkinu, þá þarftu ekki að verða neitt nýtt eða læra neitt nýtt.

Þú þarft bara að muna hvernig það er að vera hér.

Að vera maður.

Að vera faðir.

Next
Next

Það nennir enginn